- Project Runeberg -  Bandmanna saga /

Tema: Icelandic Literature, Vikings
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

11.

Nú finnast þeir feðgar og var Oddur þá albúinn til hafs. Þá segir Ófeigur Oddi að hann hefir selt þeim sjálfdæmi.

Oddur segir: "Skilstu manna armastur við mál."

Ófeigur segir: "Eigi er enn öllu skemmt frændi." Innir nú allan málavöxt og segir að honum er konu heitið. Þá þakkar hann honum liðveisluna og þykir hann langt hafa fylgt umfram það er honum kom í hug að vera mætti og segir nú að hann skal aldrei skorta fé.

"Nú skaltu fara," segir Ófeigur, "sem þú hefir ætlað en brullaup þitt skal vera á Mel að sex vikum."

Eftir það skilja þeir feðgar með kærleikum og lætur Oddur út og gefur honum byr norður á Þorgeirsfjörð og liggja þar kaupmenn fyrir áður. Nú tók af byr og liggja þeir þar nokkurar nætur. Oddi þykir seint byrja og gengur upp á eitt hátt fjall og sér að annað veðurfall er fyrir utan, fer aftur til knarrarins og bað þá flytjast út úr firðinum. Austmenn spotta þá og kváðu seint mundu að róa til Noregs.

Oddur segir: "Hvað megið til vita nema þér bíðið vor hér?"

Og er þeir koma út úr firðinum þá er þegar byr hagstæður. Leggja þeir eigi segl fyrr en í Orkneyjum. Oddur kaupir þar malt og korn, dvelst þar nokkura hríð og býr skip sitt og þegar hann er búinn þá koma austanveður og sigla þeir. Gefur þeim allvel og koma á Þorgeirsfjörð og voru kaupmenn þar fyrir. Siglir Oddur vestur fyrir landið og kemur á Miðfjörð. Hafði hann þá í brott verið sjö vikur. Er nú búist til veislu og skortir eigi góð tilföng og nóg. Þar kemur og mikið fjölmenni. Þar komu Gellir og Egill og mart annað stórmenni. Fer veislan vel fram og skörulega. Þóttust menn eigi betra brullaup þegið hafa hér á landi. Og er veisluna þraut, þá eru menn út leiddir með stórgjöfum og var þar mest fé fram lagið er Gellir átti í hlut.

Þá mælti Gellir við Odd: "Það vildi eg að við Egil væri vel gert því að hann er þess maklegur."

"Svo þykir mér," segir Oddur, "sem faðir minn hafi gert vel við hann áður."

"Bættu þó um," segir Gellir.

Ríður Gellir nú í brott og hans fólk.

Egill ríður í brott og leiðir Oddur hann á götu og þakkar honum liðveislu "og mun eg eigi svo vel gera til þín sem vera ætti en reka lét eg í gær suður til Borgar sex tigu geldinga og yxn tvö. Mun það heima þín bíða og skal aldrei forverkum við þig gera meðan við lifum báðir."

Nú skiljast þeir og líkar Egli stórvel og binda sitt vinfengi. Fer Egill heim til Borgar.


Project Runeberg, Thu Jun 20 13:00:34 1996 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/bandman/11.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free