- Project Runeberg -  Grænlendinga þáttur /

Tema: Vikings, Icelandic Literature
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

3.

Um veturinn kom Össur að máli við biskup að hann ætti þangað févon eftir Arnbjörn frænda sinn og beiddi biskup þar gera greiða á bæði fyrir sína hönd og annarra manna. Biskup kvaðst fé tekið hafa eftir grænlenskum lögum eftir slíka atburði, kvaðst þetta eigi gert hafa með einræði sitt, kvað það maklegast að það fé færi þeim til sáluhjápar er aflað höfðu og til þeirrar kirkju er bein þeirra voru að grafin, sagði það manndómsleysi að kalla nú til fjár þess.

Síðan vildi Össur eigi vera í Görðum með biskupi og fór til sveitunga sinna og héldu sig svo allir samt um veturinn.

Um vorið bjó Össur mál til þings þeirra Grænlendinga og var það þing í Görðum. Kom þar biskup og Einar Sokkason og höfðu þeir fjölmenni mikið. Össur kom þar og skipverjar hans.

Og er dómur var settur þá gekk Einar að dómi með fjölmenni og kveðst ætla að þeim mundi erfitt að eiga við útlenda menn í Noregi ef svo skyldi þar. "Viljum vér þau lög hafa er hér ganga," sagði Einar.

Og er dómurinn fór út náðu Austmenn eigi málum fram að koma og stukku frá. Nú líkar Össuri illa, þykist hafa af óvirðing en fé ekki og varð það hans úrræði að hann fer til þar er skipið er það hið steinda og hjó úr tvö borð, sínu megin hvort upp frá kilinum. Eftir það fór hann til Vestribyggðar og hitti þá Kolbein og Ketil Kálfsson og sagði þeim svo búið.

Kolbeinn kvað ósæmd til tekna enda sagði hann úrræðið eigi gott.

Ketill mælti: "Fýsa vil eg þig að þú ráðist hingað til vor því að eg hefi spurt fastmæli biskups og Einars en þú munt vanfær að sitja fyrir tilstilli biskups en framkvæmd Einars og verum heldur allir saman."

Hann kvað það og líklegast að það mundi af ráðast.

Þar var í sveit með þeim kaupmönnum Ísa-Steingrímur.

Össur fór þá aftur til Kiðjabergs. Þar hafði hann áður verið.


Project Runeberg, Wed Aug 23 19:42:42 1995 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grthattr/3.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free