- Project Runeberg -  Grænlendinga þáttur /

Tema: Vikings, Icelandic Literature
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

5.

Tíðindi þessi spurðust og fréttu það kaupmenn.

Þá mælti Ketill Kálfsson: "Ekki fór fjarri getu minni að honum mundi höfuðgjarnt verða."

Maður hét Símon, frændi Össurar, mikill maður og sterkur. Ketill kvað vera mega ef Símon fylgdi atgervi sinni "að hann mun muna dráp Össurar frænda síns."

Símon kvaðst þar eigi mundu ferleg orð um hafa.

Ketill lét búa skip þeirra og sendi menn á fund Kolbeins stýrimanns og sagði honum tíðindin "og segið honum svo að eg skal fara með máli á hendur Einari því mér eru kunnig grænlensk lög og er eg búinn til við þá. Höfum vér og mikinn liðskost ef að oss kemst."

Símon kvaðst vilja Ketils ráðum fram fara. Síðan fór hann og hitti Kolbein, sagði honum vígið og þar með orðsending Ketils og þeir skyldu snúast til liðveislu við þá úr Vestribyggð og sækja til þings þeirra Grænlendinga. Kolbeinn kvaðst koma mundu að vissu ef hann mætti og kvaðst vilja að Grænlendingum yrði það eigi hagkeypi að drepa menn þeirra.

Ketill tók þegar mál af Símoni og fór með nokkura sveit manna en sagði að þeir kaupmenn skyldu halda skjótt eftir "og hafið varning með yður."

Kolbeinn fór þegar er honum komu þessi orð, bað og félaga sína fara til þings og kveðst þá hafa svo mikla sveit að óvíst væri að Grænlendingar sætu yfir hlut þeirra. Nú hittust þeir Kolbeinn og Ketill og báru ráð sín saman. Hvortveggji þeirra var gildur maður. Nú fóru þeir og bægði þeim veður og komast þó fram og höfðu mikla sveit manna en þó minni en þeir hugðu.

Nú komu menn til þings. Sokki var þar kominn Þórisson. Hann var vitur maður og var þá gamall og mjög tekinn til að gera um mál manna. Hann gengur á fund þeirra Kolbeins og Ketils og kvaðst vilja leita um sættir.

"Vil eg bjóðast til," segir hann, "að gera í milli yðvar. Og þótt mér sé meiri vandi á við Einar son minn þá skal það þó um gera er mér og öðrum vitrum mönnum líst nær sanni."

Ketill kvaðst ætla að þeir mundu málum fram halda til málsfyllingar en fyrirkveðast eigi að taka sættir "en þó er ört að gengið við oss en höfum ekki vanist því hér til að minnka vorn hlut."

Sokki kveðst ætla að þeir munu eigi jafnt að vígi standa og kvað óvíst að þeir fengju meiri sæmd þó hann dæmdi eigi.

Kaupmenn gengu að dómi og hafði Ketill mál frammi á hönd Einari.

Það mælti Einar: "Það mun víða spyrjast ef þeir bera oss hér málum" og gekk að dóminum og hleypir upp og fengu þeir eigi haldið.

Þá mælti Sokki: "Kostur skal enn þess er eg bauð, að sættast og geri eg um málið."

Ketill kvaðst ætla að það mundi nú ekki verða "er þú leggur til yfirbóta það er þó er hinn sami ójafnaður Einars um þetta mál" og skildu að því.

En því komu kaupmenn eigi úr Vestribyggð til þings að þá var andviðri er þeir voru búnir með tveim skipum.

En að miðju sumri skyldi sætt gera á Eiði. Þá komu þeir kaupmenn vestan og lögðu að við nes nokkuð og hittust þeir þá allir saman og áttu stefnur.

Þá mælti Kolbeinn að eigi skyldi svo nær hafa gengið um sættirnar ef þeir hefðu allir samt verið "en það þykir mér nú ráð að vér förum allir til þessa fundar með slíkum föngum sem til eru." Og svo var að þeir fóru og leyndust í leynivogi einum skammt frá biskupsstólnum.

Það bar saman að biskupsstólinum, að hringdi til hámessu og það að Einar Sokkason kom. Og er kaupmennirnir heyrðu þetta þá sögðu þeir að mikla skyldi gera virðing til Einars að hringja skal í mót honum og kváðu slík mikil endemi og urðu illa við.

Kolbeinn mælti: "Verðið eigi illa við þetta því að svo mætti að berast að þetta yrði að líkhringingu áður kveld kæmi."

Nú komu þeir Einar og settust niður í brekku einni. Sokki lét fram gripi til virðingar og þá er til gjalds voru ætlaðir.

Ketill mælti: "Það vil eg að við Hermundur Koðránsson virðum gripina."

Sokki kvað svo vera skyldu.

Símon frændi Össurar sýndi á sér óþekktarsvip og reikaði hjá meðan gripagjaldið var sett. Síðan var fram borin spangabrynja ein forn.

Símon mælti þá: "Svívirðlega er slíkt boðið fyrir slíkan mann sem Össur var" og kastaði brynjunni á völlinn á burt og gekk upp að þeim er þeir sátu í brekkunni.

Og er það sáu þeir Grænlendingar þá spretta þeir upp og horfðu forbrekkis og í móti honum Símoni. Og því næst gekk Kolbeinn upp hjá þeim er þeir horfðu allir frá og slæst á bak þeim og fór einn frá sínum mönnum. Og var það jafnsnemma að hann komst á bak Einari og hjó með öxi milli herða honum og Einars öx kom í höfuð Símoni og fengu báðir banasár.

Einar mælti er hann féll: "Slíks var að von."

Síðan hljóp Þórður fóstbróðir Einars að Kolbeini og vildi höggva hann en Kolbeinn snaraðist við honum og stakk fram öxarhyrnunni og kom í barkann Þórði og hafði hann þegar bana. Síðan slær í bardaga með þeim. Biskup sat hjá Einari og andaðist hann í knjám honum. Steingrímur hét maður er það mælti að þeir skyldu gera svo vel að berjast eigi og gekk á milli með nokkura menn en hvorirtveggju voru svo óðir að Steingrímur var lagður sverði í gegnum í þessi hríð. Einar andaðist uppi á brekkunni við búð Grænlendinga.

Og nú urðu menn sárir mjög og komust þeir Kolbeinn til skips með þrjá sína menn vegna og fóru síðan yfir Einarsfjörð til Skjálgsbúða. Þar voru kaupskipin og voru þá mjög í búnaði.

Kolbeinn kvað í hafa gerst nokkura róstu "og vil eg ætla að Grænlendingar uni nú eigi betur við en áður."

Ketill mælti: "Sannyrði gafst þér Kolbeinn," sagði hann, "að vér mundum heyra líkhringinguna áður vér færum í burt og ætla eg að hann Einar sé dauður borinn til kirkju."

Kolbeinn kvaðst heldur þannig hafa að stutt.

Ketill mælti: "Þess er von að Grænlendingar muni sækja á vorn fund og kalla eg ráð að menn haldi á búnaði sínum eftir föngum og séu allir á skipum um nætur."

Og svo gerðu þeir.

Sokki harmaði mjög þessi tíðindi og bað menn fulltingis að veita sér vígsgengi.


Project Runeberg, Wed Aug 23 19:42:43 1995 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grthattr/5.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free