- Project Runeberg -  Landfræðissaga Íslands / I. /
86

(1892-1904) [MARC] Author: Þorvaldur Thoroddsen
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

Full resolution (JPEG) - On this page / på denna sida - Sidor ...

scanned image

<< prev. page << föreg. sida <<     >> nästa sida >> next page >>


Below is the raw OCR text from the above scanned image. Do you see an error? Proofread the page now!
Här nedan syns maskintolkade texten från faksimilbilden ovan. Ser du något fel? Korrekturläs sidan nu!

This page has been proofread at least once. (diff) (history)
Denna sida har korrekturlästs minst en gång. (skillnad) (historik)

að lokum er í sumum útgáfunum lítið eptir af ritinu
sjálfu. Um allan seinni hluta miðaldanna er öll
landafræði eingöngu bundin við Ptolemeus; hans bók (með
breytingum og viðaukum) er eina handbókin við alla
kennslu og lærdóm um gjörvallan hinn menntaða heim,
og allir hinir helztu uppdrættir af heiminum eru tengdir
við þetta rit því til skýringar. Það fer þó fjarri því, að
þetta rit sé skemmtilegt aflestrar; nei! þvert á móti; það
er ekkert annað en upptalningar af löndum og borgum,
með töflum, er segja hnattstöðu hvers staðar.

Claudius Ptolemeus segja sumir að hafi verið ættaður
frá Pelusion í Egyptalandi, [1] en menn vita því nær
ekkert um æfiferil hans; hann var mikill stjörnuspekingur
og lifði um miðja 2. öld e. Kr. í Alexandríu; kenningum
hans um byggingu himinsins fylgdu allir stjörnufræðingar
fram á daga Kopernicusar. Landafræði sina [2] ritaði
hann um 140 e. Kr.; Ptolemeus segist sjálfur hafa
samið rit sitt eptir landabréfi og ritum Marinusar frá
Týrus; þó hefir hann mjög endurbætt staðaákvarðanir o.
m. fl. Fönikíumenn voru eins og kunnugt er lengi fram
eptir mesta siglingaþjóð heimsins, og þekktu fleiri lönd
og þjóðir en nokkrir aðrir. Marinus lét fyrsta hádegisbauginn
ganga gegnum Canarisku eyjarnar (Insulæ fortunatæ),
svo Fönikíumenn hafa eiginlega fvrstir notað
hádegisbauginn um eyna Ferro, sem nú er almennt
notaður á allflestum landabréfum. Breiddarstigin eru
allnákvæm hjá Ptolemeusi, enda voru menn þá svo langt
komnir í stjörnufræði, að það mátti mæla pólhæðir nokkurn
veginn nákvæmlega eptir dagslengdínni, sólspjaldi og
stjörnuhæðum. [3] Þó eru breiddirnar fram eptir öldum


[1] Þetta er þó mjög efasamt, sbr A. Forbiger: Handbuch der
alten Geographie. I., bls. 402.
[2] Γεωγραφικὴ υφήγησις í 8 bókum. Í fyrstu bókinni er leiðarvísir
til að gjöra landabréf með lengdar- og breiddarstigum; í
næstu 6 bókunum er upptalning landa og borga og staða-ákvörðun
þeirra, en í 8. bókinni er yfirlit yfir allt ritið.
[3] Á elztu tímum fornaldarinnar mældu menn pólhæðir með
sólspjaldi (gnomon); þess hefir fyrr verið getið, að Pyþeas mældi
pólhæð Massilíuborgar með sólspjaldi, en sá, sem kom slíkum
mælingum á réttan rekspöl, var hinn mikli stjörnufræðingur Hipparchos
frá Nikæa í Biþyníu (um 150 f. Kr.). Forngrikkir í Alexandríu og
Arabar höfðu handhægt verkfæri til að mæla pólhæðir; það var
almennt á miðöldunum kallað »astrolabium«. Þessi verkfæri voru
mjög algeng hjá Aröbum á 8. og 9. öld, en kristnir fræðimenn á
vesturlöndum fóru fyrst að nota þau á 11. öld, og fengu þau þá
frá Aröbum; verkfærið var tréhringur með mælistigum, með föstum
þverspýtum í kross, er skipta hringnum í 4 jafna parta; við miðju
krossins var festur hreyfanlegur vísir (alidad), er náði þvers yfir
hringinn, á endum vísirsins voru smá göt og mátti miða með þeim
stjörnuna. Regiomontanus (Johann Müller) frá Königsberg í Franken
(1436—1476) nafnfrægur stjörnufræðingur, endurbætti þessi verkfæri
og gjörði þau úr málmi. Þess konar »astrolabia« höfðu þeir með
sér á ferðum sínum Columbus, Vasco da Gama og Magellan.
Mælingarverkfæri þau, sem nú eru notuð, t. d. »theodólítar«, eru
endurbættir afkomendur þessa verkfæris. Regiomontanus fann líka upp
annað verkfæri, sem sjómenn notuðu mjög lengi; Englendingar kölluðu
það krossstaf (cross-staff), Spánverjar Jakobsstaf (baculo de
Santjago); hann var gjörður svo, að þverstafur, jafnlangur upp og
niður, var hreyfanlegur á langri stöng; þegar mæla átti, var endi
stangarinnar settur við augað og þverstafurinn færður þangað til,
að neðri endinn nam við sjóndeildarhring, en hinn efri við
stjörnuna, er mæla átti; mátti svo á stönginni lesa þau hæðarhorn, er
svöruðu til stöðu þverstafsins. Þetta verkfæri brúkuðu flestir
sjómenn á árunum 1500—1750. Árið 1737 fann John Hadley, enskur
stjörnufræðingur, upp að búa til spegiloctanta; seinna var þeim
breytt í sextanta, sem nú eru almennt notaðir.

<< prev. page << föreg. sida <<     >> nästa sida >> next page >>


Project Runeberg, Sun Dec 10 14:45:09 2023 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/landfraed/1/0100.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free