Það er nú þessu næst að Bjarni Herjúlfsson kom utan af Grænlandi á fund Eiríks jarls og tók jarl við honum vel. Sagði Bjarni frá ferðum sínum er hann hafði lönd séð og þótti mönnum hann verið hafa óforvitinn er hann hafði ekki að segja af þeim löndum og fékk hann af því nokkuð ámæli.
Bjarni gerðist hirðmaður jarls og fór út til Grænlands um sumarið eftir. Var nú mikil umræða um landaleitan.
Leifur son Eiríks rauða úr Brattahlíð fór á fund Bjarna Herjúlfssonar og keypti skip að honum og réð til háseta svo að þeir voru hálfur fjórði tugur manna saman. Leifur bað föður sinn Eirík að hann mundi enn fyrir vera förinni.
Eiríkur taldist heldur undan, kveðst þá vera hniginn í aldur og kveðst minna mega við vosi öllu en var. Leifur kveður hann enn mundu mestri heill stýra af þeim frændum. Og þetta lét Eiríkur eftir Leifi og ríður heiman þá er þeir eru að því búnir og var þá skammt að fara til skipsins. Drepur hesturinn fæti, sá er Eiríkur reið, og féll hann af baki og lestist fótur hans.
Þá mælti Eiríkur "Ekki mun mér ætlað að finna lönd fleiri en þetta er nú byggjum vér. Munum vér nú ekki lengur fara allir samt."
Fór Eiríkur heim í Brattahlíð en Leifur réðst til skips og félagar hans með honum, hálfur fjóði tugur manna. Þar var suðurmaður einn í ferð er Tyrkir hét.
Nú bjuggu þeir skip sitt og sigldu í haf þá er þeir voru búnir og fundu þá það land fyrst er þeir Bjarni fundu síðast. Þar sigla þeir að landi og köstuðu akkerum og skutu báti og fóru á land og sáu þar eigi gras. Jöklar miklir voru allt hið efra en sem ein hella væri allt til jöklanna frá sjónum og sýndist þeim það land vera gæðalaust.
Þá mælti Leifur: "Eigi er oss nú það orðið um þetta land sem Bjarna að vér höfum eigi komið á landið. Nú mun eg gefa nafn landinu og kalla Helluland."
Síðan fóru þeir til skips. Eftir þetta sigla þeir í haf og fundu land annað, sigla enn að landi og kasta akkerum, skjóta síðan báti og ganga á landið. Það land var slétt og skógi vaxið og sandar hvítir víða þar sem þeir fóru og ósæbratt.
Þá mælti Leifur: "Af kostum skal þessu landi nafn gefa og kalla Markland."
Fóru síðan ofan aftur til skips sem fljótast.
Nú sigla þeir þaðan í haf landnyrðingsveður og voru úti tvö dægur áður þeir sáu land og sigldu að landi og komu að ey einni er lá norður af landinu og gengu þar upp og sáust um í góðu veðri og fundu það að dögg var á grasinu og varð þeim það fyrir að þeir tóku höndum sínum í döggina og brugðu í munn sér og þóttust ekki jafnsætt kennt hafa sem það var.
Síðan fóru þeir til skips síns og sigldu í sund það er lá milli eyjarinnar og ness þess er norður gekk af landinu, stefndu í vesturátt fyrir nesið. Þar var grunnsævi mikið að fjöru sjóvar og stóð þá uppi skip þeirra og var þá langt til sjóvar að sjá frá skipinu.
En þeim var svo mikil forvitni á að fara til landsins að þeir nenntu eigi þess að bíða að sjór félli undir skip þeirra og runnu til lands þar er á ein féll úr vatni einu. En þegar sjór féll undir skip þeirra þá tóku þeir bátinn og réru til skipsins og fluttu það upp í ána, síðan í vatnið og köstuðu þar akkerum og báru af skipi húðföt sín og gerðu þar búðir, tóku það ráð síðan að búast þar um þann vetur og gerðu þar hús mikil.
Hvorki skorti þar lax í ánni né í vatninu og stærra lax en þeir hefðu fyrr séð.
Þar var svo góður landskostur, að því er þeim sýndist, að þar mundi engi fénaður fóður þurfa á vetrum. Þar komu engi frost á vetrum og lítt rénuðu þar grös. Meira var þar jafndægri en á Grænlandi eða Íslandi. Sól hafði þar eyktarstað og dagmálastað um skammdegi.
En er þeir höfðu lokið húsgerð sinni þá mælti Leifur við föruneyti sitt: "Nú vil eg skipta láta liði voru í tvo staði og vil eg kanna láta landið og skal helmingur liðs vera við skála heima en annar helmingur skal kanna landið og fara eigi lengra en þeir komi heim að kveldi og skiljist eigi."
Nú gerðu þeir svo um stund. Leifur gerði ýmist, að hann fór með þeim eða var heima að skála.
Leifur var mikill maður og sterkur, manna skörulegastur að sjá, vitur
maður og góður hófsmaður um alla hluti.