- Project Runeberg -  Grænlendinga saga /

Tema: Icelandic Literature, Vikings
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

8.

Freydís fór nú til bús síns því að það hafði staðið meðan óskatt. Hún fékk mikinn feng fjár öllu föruneyti sínu því að hún vildi leyna láta ódáðum sínum. Situr hún nú í búi sínu.

Eigi urðu allir svo haldinorðir að þegðu yfir ódáðum þeirra eða illsku að eigi kæmi upp um síðir. Nú kom þetta upp um síðir fyrir Leif bróður hennar og þótti honum þessi saga allill. Þá tók Leifur þrjá menn af liði þeirra Freydísar og píndi þá til sagna um þenna atburð allan jafnsaman og var með einu móti sögn þeirra.

"Eigi nenni eg," segir Leifur, "að gera það að við Freydísi systur mína sem hún væri verð en spá mun eg þeim þess að þeirra afkvæmi mun lítt að þrifum verða."

Nú leið það svo fram að öngum þótti um þau vert þaðan í frá nema ills.

Nú er að segja frá því er Karlsefni býr skip sitt og sigldi í haf. Honum fórst vel og kom til Noregs með heilu og höldnu og sat þar um veturinn og seldi varning sinn og hafði þar gott yfirlæti og þau bæði hjón af hinum göfgustum mönnum í Noregi. En um vorið eftir bjó hann skip sitt til Íslands.

Og er hann var albúinn og skip hans lá til byrjar fyrir bryggjunum þá kom þar að honum Suðurmaður einn, ættaður af Brimum úr Saxlandi. Hann falar af Karlsefni húsasnotru hans.

"Eg vil eigi selja," sagði hann.

"Eg mun gefa þér við hálfa mörk gulls," segir Suðurmaður.

Karlsefni þótti vel við boðið og keyptu síðan. Fór Suðurmaður í burt með húsasnotruna en Karlsefni vissi eigi hvað tré var. En það var mösur kominn af Vínlandi.

Nú siglir Karlsefni í haf og kom skipi sínu fyrir norðan land í Skagafjörð og var þar upp sett skip hans um veturinn. En um vorið keypti hann Glaumbæjarland og gerði bú á og bjó þar meðan hann lifði og var hið mesta göfugmenni og er mart manna frá honum komið og Guðríði konu hans og góður ættbogi.

Og er Karlsefni var andaður tók Guðríður við búsvarðveislu og Snorri son hennar er fæddur var á Vínlandi.

Og er Snorri var kvongaður þá fór Guðríður utan og gekk suður og kom út aftur til bús Snorra sonar síns og hafði hann þá látið gera kirkju í Glaumbæ. Síðan varð Guðríður nunna og einsetukona og var þar meðan hún lifði.

Snorri átti son þann er Þorgeir hét. Hann var faðir Yngveldar móður Brands biskups. Dóttir Snorra Karlsefnissonar hét Hallfríður. Hún var kona Runólfs föður Þorláks biskups. Björn hét sonur Karlsefnis og Guðríðar. Hann var faðir Þórunnar móður Bjarnar biskups.

Fjöldi manna er frá Karlsefni komið og er hann kynsæll maður orðinn. Og hefir Karlsefni gerst sagt allra manna atburði um farar þessar allar er nú er nokkuð orði á komið.


Project Runeberg, Mon Oct 21 01:35:53 1996 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grenlend/08.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free