- Project Runeberg -  Grænlendinga þáttur /

Tema: Vikings, Icelandic Literature
Table of Contents / Innehåll | << Previous | Next >>
  Project Runeberg | Catalog | Recent Changes | Donate | Comments? |   

2.

Sigurður hét maður og var Njálsson, grænlenskur maður. Hann fór oft á haustum til fangs í óbyggðir. Hann var sægarpur mikill. Þeir voru fimmtán saman.

Þeir komu um sumarið að jöklinum Hvítserk og höfðu fundið nokkurar eldstóar manna og enn nokkurn veiðiskap.

Þá mælti Sigurður: "Hvors eruð þér fúsari, að hverfa aftur eða fara lengra? Er nú eigi sumars mikið eftir en fang orðið lítið."

Hásetar kváðust fúsari aftur að hverfa og sögðu mannhættu mikla að fara um stórfjörðu undir jöklum.

Hann kvað það satt "en svo segir mér hugur um að eftir muni hið meira fangið ef því náir."

Þeir báðu hann ráða, kváðust lengi hans forsjá hlítt hafa og þó vel gefist. Honum kveðst meira um að halda fram og svo var gert.

Steinþór hét maður er á skipi þeirra var. Hann tók til orða: "Dreymdi mig í nótt Sigurður," sagði hann, "og mun eg segja þér drauminn nú. Er vér fórum á fjörðinn þennan hinn mikla þóttist eg kominn í milli bjarga nokkurra og æpa til bjargar mér."

Sigurður kvað draum meðallagi góðan "og skyldir þú þar eigi björg undir fótum troða og hitta eigi í þann einangur að þú mættir eigi munni halda."

Steinþór var heldur æðimaður í skaplyndi og óforsjáll.

Og er þeir sækja inn á fjörðinn þá mælti Sigurður: "Hvort er sem mér sýnist að skip sé inn á fjörðinn?"

Þeir kváðu svo vera. Sigurður kvað það tíðindum mundu gegna.

Héldu nú síðan inn að og sáu að skipið var sett upp í einn árós og gert fyrir ofan. Það var mikið hafskip. Síðan gengu þeir á land og sáu skála og tjald skammt frá.

Þá mælti Sigurður að þeir mundu tjalda fyrst "og er nú liðið á dag og vil eg að menn séu kyrrrlátir og varúðgir."

Og svo gerðu þeir.

Og um morguninn ganga þeir og sjást um. Þeir sjá stokk einn hjá sér og stóð í bol öx og mannshræ hjá. Sigurður kvað þann mann viðinn hoggið hafa og hafa orðið vanmeginn af megri. Síðan gengu þeir að skálanum og sáu þar annað mannshræ. Sigurður kvað þann gengið hafa meðan hann mátti "og munu þessir verið hafa þjónustumenn þeirra er í skálanum eru."

Öx lá og hjá þessum.

Þá mælti Sigurður: "Það kalla eg ráð að rjúfa skálann og láta leggja út daun af líkum þeim er inni eru og ýldu er lengi mun legið hafa. Og varist menn fyrir að verða því að þess er eigi lítil von að mönnum verði að því mein og mjög er á mót eðli manna þótt líkindi séu á því að menn þessir muni oss ekki illt gera."

Steinþór kvað slíkt undarlegt að gera sér meira fyrir en þyrfti og gekk á hurðina en þeir rufu skálann.

Og er Steinþór gekk út þá leit Sigurður til hans og mælti: "Allmjög er manninum brugðið."

Hann tók þegar að æpa og hlaupa en þeir eftir félagar hans. Hann hleypur síðan í hamarrifu nokkura þar er engi mátti að honum komast og þar fékk hann bana. Sigurður kvað hann of berdreyman.

Síðan rufu þeir skálann og gerðu eftir því sem Sigurður mælti og varð þeim ekki mein að. Þeir sáu þar í skálanum menn dauða og fé mikið.

Þá mælti Sigurður: "Það sýnist mér ráð að þér hleypið holdi af beinum þeirra í heitukötlum þeirra er þeir hafa átt og er svo hægra til kirkju að færa. Og er það líkast að Arnbjörn muni hér verið hafa því að skip þetta annað hið fagra er hér stendur á landi hefi eg heyrt að hann hafi átt."

Það var höfðaskip og steint og mikil gersemi.

Kaupskipið var brotið mjög neðan og kvaðst Sigurður ætla að það mundi að engum nytjum verða. Þeir taka úr sauminn en brenndu skipið og höfðu hlaðna ferjuna úr óbyggðum, eftirbátinn og höfðaskipið.

Þeir komu í byggðina og fundu biskup í Görðum og sagði Sigurður honum tíðindin og fjárfundinn.

"Nú kann eg eigi annað að sjá," sagði hann, "en það fé þeirra muni best komið er beinum þeirra fylgir og ef eg á nokkuru ráð þá vil eg að svo sé."

Biskup kvað hann vel hafa með farið og viturlega og það mæltu allir.

Mikið fé fylgdi líkum þeirra. Biskup kvað gersemi mikla vera höfðaskipið. Sigurður kvað og það sannlegast að það færi til staðarins fyrir sálum þeirra. Öðru fé skiptu þeir með sér er fundið höfðu að grænlenskum lögum.

Og er þessi tíðindi komu til Noregs þá spurði það sá maður er Össur hét og var systurson Arnbjarnar. ...og fleiri menn voru þeir á því skipi er sína frændur höfðu misst og væntu til greiðslu um féið.

Þeir komu í Eiríksfjörð og sóttu menn til fundar við þá og slógu kaupum. Síðan tóku menn sér vistir. Össur stýrimaður fór í Garða til biskups og var þar um veturinn.

Í Vestribyggð var þá annað kaupskip. Þar var Kolbeinn Þorljótsson, norrænn maður. Hinu þriðja skipi réð sá maður er Hermundur hét og var Koðránsson og Þorgils bróðir hans og höfðu mikla sveit manna.


Project Runeberg, Wed Aug 23 19:42:41 1995 (aronsson) (diff) (history) (download) << Previous Next >>
https://runeberg.org/grthattr/2.html

Valid HTML 4.0! All our files are DRM-free